Stóra vísindaferðin suður er árlegur viðburður og einn sá allra skemmtilegasti.
Það var einstaklega gaman að geta boðið upp á ferðina þar sem hún hefur ekki verið haldin í 2 ár og fór skráningin fram úr okkar björtustu vonum.
Markmið ferðarinnar er fyrst og fremst að hafa gaman og þjappa hópinn saman og kynnast fólki sem við annars gætum farið á mis við. Það sem stendur upp úr ferðunum eru heimsóknirnar í öll fyrirtækin og stofnanirnar sem aðildarfélögin fara í.
Öll aðildarfélögin stóðu sig svo vel að skipuleggja ferðir í fyrirtæki og stúdentar nýttu heimsóknirnar vel til að forvitnast og fræðast.
SHA voru með hvorki meira né minna en fimm sameiginlegar ferðir í ár.
Við byrjuðum ferðina á að heimsækja Símann en við erum búin að vera í góðu samstarfi við þau þetta skólaár og stóð vísindaferðin þeirra svo sannarlega upp úr hjá mörgum.
Á föstudeginum fórum við svo Orkusöluna þar sem boðið var upp á stanslaust stuð. Orkusalan ætlar svo einnig að koma norður og taka þátt í framtíðardögum SHA & NSHA 21. febrúar.
Gerður í Blush tók svo á móti öllum hópnum til sín og fræddumst við um fyrirtækjareksturinn og að sjálfsögðu kynlífstækin. Eftir Blush lá leiðin í Minigarðinn þar sem var boðið upp á pizzuhlaðborð og fólk skemmti sér vel, Eydís formaður Eirar á allan heiðurinn á skipulagningu í minigarðinn og þökkum við henni fyrir hjálpina.
Á laugardeginum var farið í Ölgerðina en sú ferð hefur verið lang vinsælust en því miður takmarkað pláss í ferðina. Þar fengum við kynningu á fyrirtækinu og kom mörgum á óvart að Ölgerðin selur ekki bara drykki heldur eru þeir líka með heildsöluna Danól sem selur t.d. snyrtivörur.
Eftir Ölgerðina var ferðinni heitið í Valhöll þar sem Sjálfstæðisflokkurinn tók vel á móti okkur. Hefð er fyrir því að fara í heimsókn til eins stjórnmálaflokks á hverju ári og í ár var komið að Sjálfstæðisflokknum, það var því einstaklega gaman að Áslaug Arna Háskólaráðherra gat tekið á móti okkur og svaraði spurningum sem komu frá stúdentum.
Við erum ótrúlega ánægð með helgina og vonumst til að þið hafið einnig verið ánægð með ferðina og sérstakar þakkir fá öll fyrirtækin sem tóku á móti okkur.