Í ljósi þess að félagsmenn Félags prófessora við ríkisháskóla hafa ákveðið í atkvæðagreiðslu að boða til verkfalls frá miðnætti 1. desember sem staðið getur til 15. desember n.k. náist ekki samningar sendir Félag stúdenta við HA (FSHA) frá sér eftirfarandi tilkynningu.
Ljóst er að ef ekki verður samið mun alvarlegt og erfitt ástand skapast sem mun bitna á stúdentum við HA sem og
stúdentum við aðra ríkisrekna háskóla.
Prófatími í háskólum er mikill álagstími hjá stúdentum. Komi til verkfalls mun það
hafa alvarlegar afleiðingar í för með sér. Það mun ekki einungis valda óþarfa auknu álagi í
prófatíðinni heldur seinka svo um munar útborgun námslána. Það kemur sér illa fyrir einstaklinga
jafnt sem fjölskyldufólk sem stundar nám.
Á þessu stigi er ógjörningur að segja til um hvernig endurskipulagningu og tímasetningum prófa verður
háttað. Við hvetjum nemendur til að stunda námið og undirbúa sig fyrir prófin óháð því
sem verður, enda getur samist með stuttum fyrirvara.
Því er mikilvægt að samið verði áður en til verkfalls kemur. Af verkfalli má ekki verða þvi það mun setja
áform allt of margra úr skorðum. FSHA skorar á samningsaðila að ganga til samninga og taka á vandanum í stað þess
að slá honum á frest.