Ekki eru allir sammála um það hvort þörf er á stúdentaíbúðum á Akureyri. Nú er staðan á Akureyri þannig eins á svo mörgum stöðum að mjög mikil eftirspurn er eftir íbúðarhúsnæði en framboðið ekki eins gott. Ekki fara saman orð stúdenta og umsjónarmanna Félagsstofnunar Stúdenta á Akureyri (FÉSTA) um eftirspurn í þær íbúðir sem félagið hefur til umráða. Hvar liggur misræmið? Núna langar mig til þess að stíga fyrstu skrefin í átt að því að komast að niðurstöðu. Þurfum við ekki að laga ferlið þannig að upplifun stúdenta og FÉSTA sé sú sama og að niðurstaðan sé sú að við getum gengið samstíga inní framtíðina.
Athyglisvert er að velta ferlinu fyrir sér. Þegar sótt er um íbúð fær viðkomandi tilkynningu um staðsetningu sína á biðlista sem oft er langur og ekki fylgja alltaf upplýsingar um hvað það þýðir að vera númer þrjátíu í röðinni. Er ekki byrjað að úthluta íbúðum og fjörtíu íbúðir af ákveðni stærð í boði eða er búið að úthluta öllum íbúðunum og það eru tuttugu og níu á undan þér að fá úthlutað ef einhver hættir við? Þetta verður til þess að margir stúdentar fara að leita sér að öðrum húsakosti, á almennum leigumarkaði sem er dýrari og hentar oftast verr heldur en vera í á stúdentagörðum.
Sem formaður Félags stúdenta við Háskólann á Akureyri og stjórnarmaður í stjórn FÉSTA þá er það hlutverk mitt að gæta hagsmuna stúdenta og undir þá hagsmuni fellur það að tryggja stúdentum viðráðanlegt og þæginlegt húsnæði á meðan námi þeirra stendur..
Hver er framtíðarsýnin? Hvar á að byggja næst? Hvernig vilja stúdentar búa eftir 15 ár og hvar?
Núverandi stefna hefur verið byggð á því að dreifa stúdentaíbúðum sem víðast um bæinn, hentar það? Við erum kynslóð sem pælir mikið í umhverfinu til dæmis. Þarftu að eiga bíl? Hvernig eru samgöngur? Gæti maður búið nær? Labba? Hversu nálægt skólanum eru garðarnir í dag? Í dag eru þeir í Kjalarsíðu, Tröllagili, Drekagili, Skarðshlíð og Klettastíg. Samkvæmt aðalskipulagi Akureyrarbæjar er gert ráð fyrir stúdentaíbúðum og þjónustu við Háskólann inná svæðinu í kringum skólann. Er ekki kominn tími til þess að sköpuð sé stefna í þessum málum til næstu 50 ára? Hvernig viljum við sjá háskólann okkar dafna?
Gæti uppbygging stúdentagarða inn á háskólasvæðinu orðið til þess að notkun einkabílsins minnki? Væri hægt að koma á móts við háværar raddir innan skólans um stúdentakjallara þar sem þeir rúmlega 2000 stúdentar sem sækja skólann gætu átt sér samastað og fundið tengingu við háskólasamfélagið okkar í mun meira mæli?
Er FÉSTA tilbúið til þess að sinna hlutverki sínu og móta þessa stefnu með stúdentum? Ættu stúdentar að vera í meirihluta í FÉSTA og ætti undirritaður að koma á fót hefðum sem byggja á því að fyrrverandi nemendur HA myndu í meira mæli sinna stjórnarstörfum í eins mikilvægri stofnun og FÉSTA?
Finnum lausn, sköpum stefnu og horfum fram á við!
Ketill Sigurður Jóelsson
Formaður Félags stúdenta við Háskólann á Akureyri & stjórnarmaður í FÉSTA