Í gegnum tíðina hefur Sprellmótið verið vinsælasti viðburður stúdenta HA. Enda kannski ekki furða. Um er að ræða einstakan viðburð í félagslífi HA sem þekkist hvergi annarsstaðar. Sprellmótið hefst á Ráðhústorgi þar sem aðildarfélögin mæta, syngjandi glöð og sýna búningana sína í fyrsta skipti. Á Ráðhústorgi er svo keppt í pokahlaupi og pýramýdakeppni. Að því loknu halda leikarnir áfram og hafa farið fram á hinum ýmsu stöðum, oftast í Sjallanum og eitt árið var mótið haldið á Melgerðismelum. Frá árinu 2018 hefur Sprellmótið þó verið haldið í Miðborg og Hátíðarsal háskólans.
Í háskólanum halda leikarnir áfram og keppa aðildarfélögin í ýmsum fjölbreyttum þrautum eins og belghoppi, ásadansi og bjórþambi svo fátt eitt sé nefnt og enda leikarnir svo á glæsilegri hæfileikakeppni þar sem hvert félags sýnir atriði. Í dómnefnd er alltaf starfsfólk háskólans sem fulltrúar Stúdentaráðs vinna mikið með og í ár toppaði dómnefndin sig í búningum og kom öllum á óvart og steig á svið með sitt eigið atriði í hæfileikakeppninni sem sló heldur betur í gegn.
Dómarar í ár voru Bára Sif, Gunnar Ingi, Óskar Þór, Siggi Borgastjóri, Sigga Ásta og Sólveig María og voru þau öll einróma sammála um að þetta hafi verið best heppnaða Sprellmótið til þessa. Aldrei hafa færri mínusstig verið gefin og voru stúdentar allra aðildarfélaga til fyrirmyndar. Við erum sérstaklega ánægð með það og stolt af því hve vel tókst til en þetta er fjölmennasta Sprellmótið sem hefur verið haldið frá árinu 2018.
Í ár var mjög mjótt á munum en það var Magister, félag kennaranema sem sigraði Sprellmótið þriðja árið í röð, Eir félag heilbrigðisvísindanema tók annað sæti og Kumpáni félag félagsvísinda- og sálfræðinema landaði þriðja sætinu. Áður en leikar hefjast fá dómarar stigablað og fást X mörg stig fyrir hverja þraut sem keppt er í og aðra þætti eins og búninga, mútur, stemmingu og frágang svo fátt eitt sé nefnt.
Við í framkvæmdastjórn viljum þakka öllum stúdentum fyrir frábært Sprellmót, sérstakar þakkir fá dómararnir sex fyrir að nenna að taka þátt í þessum degi með okkur, Starri og Valli tæknimaður fá einnig sérstakar þakkir fyrir sína vinnu á Sprellmótinu í ár. Einnig Rekstur fasteigna fyrir traustið og herliðið sem mætti að loknu Sprellmóti til að gera háskólann tilbúinn fyrir ráðstefnu morguninn eftir.