Á dögunum barst frétt þess efnis að hæstvirtur háskóla- iðnaðar- og nýsköpunarráðherra ætli að auka fjölda námsplássa við Hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands (HÍ) úr 120 plássum yfir í 150 pláss haustið 2025. Þetta er frábært og við fögnum því að verið sé að setja fjármagn í háskólana til þess að fjölga hjúkrunarfræðingum þar sem ekki er nægilega mikið framboð af þeim. Þó það mætti vissulega deila um þessa aðferð til þess að reyna að fjölga vinnandi hjúkrunarfræðingum. Við setjum hins vegar spurningamerki við það hvar er verið að fjölga stúdentum. Eins og staðan er núna hefur HÍ ekki náð að svara þeirri eftirspurn sem þeir hafa þar sem nú í ár hafa verið rúmlega 120 stúdentar að reyna við klásus og 120 stúdentar sem komast inn, hver er þá tilgangurinn með samkeppnisprófum? Til hvers að hafa samkeppnispróf þegar allir stúdentar munu komast í gegn? Hvernig ætlar HÍ að svara þeirri eftirspurn að hleypa 150 stúdentum í gegnum klásus þegar það eru ekki einu sinni 150 stúdentar að reyna við samkeppnisprófin hjá þeim? Aftur á móti eru rúmlega 160 stúdentar að þreyta samkeppnisprófin við Háskólann á Akureyri (HA) þegar einungis 75 komast í gegn. Hvað segir það okkur um háskólanám á Íslandi? Hvar liggur eftirspurnin? Hvernig háskólanám vilja Íslendingar? Þeir vilja sveigjanlegt nám óháð búsetu. Það er áhugavert að bera saman aðsókn í hjúkrunarfræði í skólana tvo. Fyrir núverandi skólaár barst Háskólanum á Akureyri 251 umsókn í hjúkrunarfræði fyrir haustmisseri 2023 en aðeins 75 stúdentar öðlast rétt til náms á vormisseri að loknum samkeppnisprófum. Til samanburðar bárust Háskóla Íslands 180 umsóknir en þar komast 120 stúdentar áfram á vormisseri. Umsækjendur eru full meðvitaðir um þær aðgangstakmarkanir sem eru til staðar í báðum háskólum og vita um hve mörg pláss þeir eru að keppa. Það spyrja sig eflaust einhver af því hvers vegna mun fleiri reyni við samkeppnisprófin í HA þrátt fyrir að það séu minni líkur á því að komast í gegn þar heldur en í HÍ. Það eru eflaust ýmsar breytur sem valda því en stærstu breyturnar eru eflaust þær að stúdentar sækja í sveigjanlegt nám og vilja mennta sig óháð búsetu, það geta þeir í HA. Þá hefur orðspor hjúkrunarfræðinámsins við HA afar gott og er meðal annars talað um það á vettvangi hve vel undirbúnir hjúkrunarfræðingar frá HA eru þegar þeir mæta til starfa, tilbúnir og öruggir til að takast á við viðfangsefni hjúkrunarfræðinga.
Það er kominn tími til að stjórnvöld viðurkenni mikilvægi Háskólans á Akureyri sem landsbyggðaháskóla með sterkari hætti. Háskóli Íslands er bara einn af háskólum landsins, hann er ekki háskóliNN og það er orðið þreytt að þurfa að berjast fyrir tilverurétti Háskólans á Akureyri sem hefur margsannað mikilvægi sitt.