Félag stúdenta við Háskólann á Akureyri (FSHA) gagnrýnir harðlega þá mismunun sem birtist í tillögum fjármálaráðuneytisins á aukningu á fjárframlögum til háskóla í landinu um 617 milljónir króna. Sú mismunun lýsir sér í því að nái tillögur ráðuneytisins fram að ganga mun rúm 90% framlaganna renna til tveggja háskóla, tæpar 300 milljónir til Háskóla Íslands og 257 milljónir til Háskólans í Reykjavík. Háskólinn á Akureyri mun samkvæmt þeim tillögum sem kynntar hafa verið fá 10,3 milljónir af heildarupphæðinni.
HA hefur í verki sýnt aðhald í rekstri á sama tíma og hann hefur þurft að mæta niðurskurði fjárframlaga. Á síðustu sjö árum hefur skólinn skilað rekstrarafgangi sem notaður hefur verið til þess að greiða niður 100 milljón króna skuld við ríkið sem nú er að fullu greidd. Háskólinn er þriðji stærsti háskóli landsins og er með þriðja hæsta hlutfall birtra greina í rannsóknum á hvern akademískan starfsmann. Þá skilaði gæðaráð háskólanna úttekt nýverið þar sem skólinn fékk góðar niðurstöður auk þess sem niðurstöður könnunar sem Félagsvísindastofnun HÍ og Rannsóknarmiðstöð HA birtu í október að nemendur við skólann eru ánægðastir allra nemenda opinberu háskólanna með gæði námsins. Þá má þess geta að við skólann eru kenndar sex námsgreinar í grunnnámi sem einungis standa til boða við HA.
FSHA hvetur þingmenn til að hafa í huga áður en lokið verður við fjárlagagerðina það mikla aðahald sem HA hefur sýnt undanfarin ár og komi til móts við kröfur yfirstjórnar skólans um aukna hlutdeild í þeim fjármunum sem til ráðstöfunar eru og ætlaðir eru til háskólasamfélagsins.
Ef ekki verður brugðist við málefnalegum sjónarmiðum HA fer FSHA fram á það við formann fjárlaganefndar Alþingis, að hann rökstyðji þá fullyrðingu sína sem sett var fram í fjölmiðlum að með þessari aðgerð fái háskólarnir að fullu greitt með hverjum nemanda ólíkt því sem hafi verið á undanförnum árum. Ekki verður betur séð að staðhæfing þess efnis hvað varðar HA sé úr lausu lofti gripin.
Nú stendur á Alþingi að svara þeirri spurningu hvort rétt sé að Háskólinn á Akureyri gjaldi fyrir það að hafa sýnt ráðdeild í rekstri og hvort það sé mat þingsins að ekki eigi að veita sambærilegum fjármunum í nemanda á Akureyri og í nemanda á höfuðborgarsvæðinu?