Stofnfundur Landssamtaka íslenskra stúdenta fór fram 2. og 3. nóvember 2013 á Akureyri. Stofnaðilar samtakanna eru Félag stúdenta við Háskólann á Akureyri, Nemendafélag Háskólans á Bifröst, Nemendafélag Landbúnaðarháskóla Íslands, Nemendaráð Listaháskóla Íslands, Samband íslenskra námsmanna erlendis, Stúdentafélag Háskólans í Reykjavík, Stúdentafélag Hólaskóla og Stúdentaráð Háskóla Íslands. Allir íslenskir stúdentar, hátt í 25.000 talsins, eiga því fulltrúa í LÍS sem er sjálfstætt félag og er stjórnað af íslenskum stúdentum.
Hlutverk samtakanna er að vinna að samræmingu gæðastarfs milli háskóla á Íslandi og standa vörð um sameiginlega hagsmuni stúdenta hérlendis sem og á alþjóðavettvangi. LÍS hefur þegar tekið við setu í Sambandi evrópskra stúdenta (ESU) sem og setu á samráðsvettvangi norrænna stúdentafélaga (NOM) fyrir hönd íslenskra stúdenta en SHÍ er stofnaðili að ESU og hefur sinnt alþjóðastarfi íslenskra stúdenta allt frá fyrrihluta síðustu aldar. LÍS mun formlega sameina raddir íslenskra stúdenta í fyrsta sinn og standa að samstilltum aðgerðum.
Landssamtök íslenskra stúdenta eru samtök í mótun og vonir standa til að þau muni vaxa og dafna á næstu árum, greiða fyrir samstarfi stúdentahreyfinganna, styðja við námsmenn og auka gæði menntunar þeirra.
Stöndum vörð um hag stúdenta.
Anna Marsibil Clausen, formaður LÍS, hringir Íslandsklukkunni 8 sinnum, eitt slag fyrir hvert stofnfélag.