Kristianna Mjöll Arnard Olsen og Særún Anna Brynjarsdóttir hlutu fræðslustyrk SHA til að taka þátt verkefninu Lærimeistaraprógram KIS.
Félag kvenna í sjávarútvegi í samstarfi við HA og Stafnbúa buðu nemendum í sjávarútvegsfræði og auðlindalíftækni að vinna með lærimeistara úr félaginu.
Lærimeistarinn hafði það hlutverk að ýta undir framgöngu nemandans og miðla til hans reynslu sinni og færni með fundum 1-2 sinnum í mánuði. Nemendur voru paraðir með konu eftir svipuðum áhugasviðum.
Í þetta skipti voru fjórir nemendur sem tóku þátt í verkefninu og voru tveir af þeim Kristianna Mjöll Olsen Arnarsdóttir og Særún Anna Brynjarsdóttir. Særún er ein af þeim sem komu verkefninu af stað og hefur verið að taka þátt í að móta verkefnið með KIS.
Lærimeistari Kristiönnu var hún Ásdís Pálsdóttir sem starfar sem verkefnastjóri hjá fisktækniskóla Íslands og lærimeistari Særúnar var Áslaug Eir Hólmgeirsdóttir skrifstofustjóri sjávarútvegsmála hjá matvælaráðuneytinu.
Aðeins um ferðina frá stelpunum:
Ferðin byrjaði á heimsókn í Sjávarklasann þar sem yfir 50 frumkvöðlar í blárri nýsköpun voru með bása og kynntum við okkur starfsemi þeirra ásamt því að hitta lærimeistarann hennar Kristiönnu. Brim tók á móti okkur í heimsókn og fengum við að skoða vinnsluna hjá þeim. Áslaug Eir bauð okkur svo í heimsókn í ráðuneytið og fengum við kynningu á starfsemi þess. Þetta var í fyrsta skipti sem að lærimeistara prógrammið var framkvæmt og funduðum við með Laufey Mjöll Helgadóttur verkefnastjóra KIS um hvað okkur fannst ganga vel og hvað mætti gera öðruvísi og er stefnan svo á að verkefnið verði endurtekið á ári hverju.
Við viljum þakka KIS, Ásdísi og Áslaugu kærlega fyrir þetta frábæra framtak og svo SHA fyrir að styrkja okkur!
-Kristianna og Særún